Hugmyndafræði og aðferðir sem einkenna leiðsagnarnám eru augljósar í menntastefnum víða um heim enda þó þær gangi oft undir öðrum heitum, sem dæmi má nefna Student-centered learning og Visible learning. Megin markmiðið er að gera nemendum kleift að taka aukna ábyrgð á eigin námi. Hugmyndin sem liggur að baki byggir á breyttum viðhorfum í samskiptum sérfræðinga og notenda á síðustu áratugum. Augljós dæmi um slíkar breytingar eru samskipti heilbrigðisþjónustunnar og borgaranna þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á að vekja almenning til vitundar og ábyrgðar á eigin heilsu m.a. með því stunda heilbrigðan lífsstíl. Yfirskrift baráttu öryrkja; Ekkert um okkur án okkar, er lýsandi fyrir þessa hugmyndafræði en margir hópar hafa gert þessi einkunnarorð að sínum. Orðin undirstrika áhersluna á ákvarðanatöku og sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem um ræðir. Aukin hlutdeild notenda gengur almennt undir heitinu valdefling eða efling (e. Empowerment) en upphaf hugmyndarinnar er rakið til baráttunnar um borgararétt í Bandaríkjunum í lok sjöunda áratugarins, baráttunnar við fátækt og kynþáttamisrétti og til kvenfrelsishreyfingarinnar. Oft er vísað í skrif Paulo Freire (1974) þegar fjallað er um eflingu en hann benti á að ekki væri hægt að leysa vandamál fyrir fólk, einungis með fólki.
Það má teljast eðlileg þróun að hugmyndafræðin um valdeflingu hafi ratað inn í skólana gegnum aðalnámskrá grunnskóla og mörg dæmi má sjá um það í skólunum okkar t.d. í áherslunni á nemendalýðæði, vali í námsgreinum, nemendastýrðum foreldraviðtölum og leiðsagnarmati. Þegar um börn er að ræða liggur hin endalega ábyrgð í skólanum þó alltaf hjá starfsfólkinu.
Hugmyndafræði og nálgun leiðsagnarnáms byggir á niðurstöðum fjölda menntarannsókna sem hafa verið gerðar víða um heim á síðustu áratugum. Starfandi kennarar, m.a. undir haldleiðslu Shirley Clarke, hafa þróað kennsluaðferðir sem byggja á niðurstöðum þessara rannsóknanna en þannig hefur Clarke byggt brú frá fræðaheiminum yfir í skólana. Þegar rétt er að því staðir sýna aðferðirnar ótvíræð áhrif á námsmenningu skólanna, ekki síst sjálfsmynd nemenda, aukna hæfni til samvinnu og síðast en ekki síst á námsárangur.
Hugmyndafræði leiðsagnarnáms er hluti af ríkjandi viðhorfi til hlutverka notenda og sérfræðinga. Í þessu tilviki eru notendurnir nemendur og verkefni okkar sérfræðinganna þ.e.a.s. kennaranna er að finna leiðir til að gera nemendum kleift að taka aukna ábyrgð á námi sínu. Leiðsagnarnámið býr yfir mörgum leiðum til að ná þessum markmiðum en lykillinn að árangri er þó umfram allt viðhorf og hugmyndir kennara til nemenda og til eigin fagmennsku.