Your Cart

Það sem leiðsagnarnám er og það sem það er ekki


Fáir fræðimenn þekkja betur til rannsókna á leiðsagnarnámi (formative assessment) en Dylan Wiliam gerir en hann fullyrðir að leiðsagnarnám sé áhrifamesta leiðin til að tryggja framfarir nemenda. Wiliam varar hinsvegar við því að ekki sé allt sem kallað er leiðsagnarnám í raun leiðsagnarnám. Áhyggjum sínum deilir hann með Shirley Clarke, en í nýlegu viðtali sem birtist í TES magazine undir yfirskriftinni; Leiðsagnarnámið hefur villst af leið lýsir Clarke vonbrigðum sínum yfir því hvernig margir hafa misskilið leiðsagnarnámið, þeir noti eitthvað sem þeim finnst áhugavert í nálguninni, aðlagi það kennslu sinni og telji sér svo trú um að þeir séu að vinna með leiðsagnarnám. Sem sé fjarri sanni.


Wiliam hefur almennt beint umfjöllun sinni um leiðsagnarnám að unglingastigi og framhaldsskólum, meðan Clarke hefur sérhæft sig í fyrstu 7 árum grunnskólans og leggur enn meiri þunga á að efla markvisst námsvitund nemenda og trú þeirra á eigin getu.


Í myndbandinu sem hér fylgir vísar Wiliam í glæru sem skýrir hvað átt er við með leiðsagnarnámi. Því aðeins að allir 5 þættirnir séu til staðar er hægt að tala um leiðsagnarnám. Hér er þýðing á glærunni;Wiliam telur það einkenna marga skóla að allar kennslustundir eigi að hefjast á því að kennarinn geri nemendum grein fyrir markmiði tímans. Markmiðið er skráð á töflu og nemendur jafnvel látnir skrá það í bækur sínar, en eftir það sé lítið á markmiðið minnst. Hann bendir á að það eigi ekki alltaf við að setja markmið í byrjun kennslustundarinnar, heldur þurfi kennarinn stöðugt að vega og meta hvernig og hvenær það henti best að setja markmið. Stundum ætti alls ekki að setja markmið t.d. þegar verið er að vinna að rannsókn eða leysa þrautir, enda snýst markmið ekki um það sem á að gera, heldur það sem á að læra. Það geti líka orðið leiðigjarnt ef allar kennslustundir hefjist á sama hátt. Af og til á betur við að ræða ekki markmiðið fyrr en í miðri kennslustund og spyrja nemendur þá hvað þeir haldi að þeir séu að læra, eða jafnvel í lok tímans. Hann bendir á nauðsyn þess að kennarar geri greinarmun á viðfangsefninu sem nemendur eru að fást við og hæfinni sem þeir eru að tileinka sér og hafi í huga að nemendur geti yfirfært hæfni sína á önnur viðfangsefni. Til þess að kennarinn geti aðlagað kennsluna að þörfum nemenda þarf hann alltaf að vita hvar nemendur hans eru staddir. Fjölbreyttar aðferðir m.a. spurningar sem orðaðar eru þannig að þær veita upplýsingar sem skipta máli, eru markvisst notaðar.Endurgjöf er án efa sá einstaki þáttur í leiðsagnarnámi sem hefur mest áhrif. Því miður segir Wiliam endurgjöfina sem nemendur fá ekki alltaf skila tilætluðum árangri m.a. vegna þess að of oft snúist hún um það sem nemendur hafa þegar gert í stað þess að beina námi nemendanna fram á við.


Þegar kemur að þáttum 4 og 5, því að virkja nemendur svo þeir læri saman og hver af öðrum og efla nemendur svo þeir geti tekið ábyrgð á eigin námi, telur Wiliam að oft sé pottur brotinn. Allt of algengt sé að kennarinn vinni meira í tímanum en nemendurnir. Wiliam segist einnig hafa efasemdir um kennara sem haldi því fram að þeir kenni ekki heldur séu þeir fyrst og fremst til staðar fyrir nemendur þegar á þurfi að halda. Þessir kennarar líti svo á að námið sé í höndum nemendanna sjálfra. Nám er að sögn Wiliam flókið fyrirbæri, það sé hvorki hægt að tryggja það með kennslu kennara né heldur með því að kennarinn haldi sig til hlés meðan nemendur læri. Kennarinn þurfi að búa yfir nægri þekkingu til að vita hvað á best á við hverju sinni. Megin atriðið sé að kennarar nýti vísbendingar úr námi nemenda til að laga kennsluna að þörfum þeirra. Góður kennari veit hvar nemendur hans er staddir, hvert þeir eru að fara, skipuleggur ferðina með þeim og lagar kennsluna að henni.


Í lok myndbandsins gefur Wilam nokkur hagnýt ráð til að nota í kennslu. Hann hvetur m.a. til þess að nemendur fái að skoða fyrirmyndir frá öðrum svo þeir fái tilfinningu fyrir því hvað einkenni vel unnin verkefni. Hér skiptir öllu máli að gefa nemendum tækifæri til að ígrunda, ræða og draga ályktanir.