Your Cart

Endurgjöf sem stuðlar að framförum

Í ljósi þess að mikil orka og tími hefur farið í umræður um námsmat og framkvæmd þess, er rannsókn nokkur sem gerð var í Ísrael mjög athyglisverð. Í myndbandinu sem hér fylgir: „Providing feedback that moves learning forward“ fjallar Wiliam um helstu niðurstöður hennar.


Rannsóknin var gerð af Ruth Butler og fleirum og náði til 260 nemenda í 12 bekkjum. Sérstök áhersla var lögð á að skoða áhrif námsmatsins á þá nemendur sem náðu bestum árangri í náminu og á hina sem slakast stóðu. Nemendur fengu sambærilega kennslu, allir voru að vinna að sömu markmiðum og sömu kennarar kenndu öllum hópunum. Eini munurinn var fólginn í endurgjöfinni sem nemendurnir fengu. Í fjórum bekkjanna fengu nemendur einkunnir í formi stiga frá 44 – 99. Í næstu fjórum bekkjum fengu nemendur athugasemdir/endurgjöf meðan þeir voru að vinna. Þetta voru ekkert sérstaklega merkilegar athugasemdir, heldur t.d. „ þú hefur bent á nokkur góð dæmi hér, kannski gætir þú fundið nokkur til viðbótar“. Loks fékk síðasti þriðjungurinn, líka fjórir bekkir, bæði stig og skriflegar athugasemdir.


Eftir að verkefninu lauk var öllum nemendunum gefinn kostur á að bæta sig með því að vinna það aftur. Engar framfarir urðu við endurtekninguna hjá þeim nemendum sem höfðu fengið stig. Þegar kennararnir spurðu þessa nemendur hvort þeir hefðu áhuga á að vinna fleiri verkefni af sama toga svöruðu þeir sem höfðu fengið mörg stig því játandi, en hinir sem höfðu fengið fá stig svörðu því neitandi og kusu að snúa sér að öðru.


Þegar nemendurnir, sem höfðu fengið athugasemdir/endurgjöf meðan þeir voru að vinna, endurtóku verkefnið jukust framfarir þeirra um 30%. Þegar þeim var boðið að vinna fleiri svipuðuð verkefni lýstu bæði nemendurnir sem höfðu staðið sig best og hinir sem stóðu sig síst áhuga á því. Athugið að þessir nemendurnir voru ómeðvitaðir um hvað þeir höfðu fengið mörg stig.


Athyglisvert er að nemendur sem fengu bæði stig (einkunn) og athugasemdir sýndu nákvæmlega sama árangur við endurtekninguna og þeir sem fengu aðeins stig, með öðrum orðum það urðu engar framfarir hjá þeim. Wiliam útskýrir þetta með því að þegar nemendur hafa séð einkunnina sína, í hvaða formi sem hún er, hafi þeir ekki áhuga á frekari upplýsingum. Þeir sem fá háar einkunnir eru sáttir og hafa ekki þörf fyrir meira, hinir sem fá lágar einkunnir upplifa vonleysi og sjá ekki tilganginn í því að reyna aftur. Í raun upplifa þeir að einkunnagjöfin beinist frekar að persónu þeirra en hæfninni sem þeir eru að vinna að.

Þetta er sérstaklega umhugsunarvert að mati Wiliam, þar sem að þessi tegund endurgjafar er algengust í heiminum í dag, það er að segja kennarar gefa nemendum stig eða einhverskonar einkunnir og bæta svo við skriflegri umsögn.