Hvers vegna eru námsfélagar eitt helsta einkenni leiðsagnarnáms? Stutta svarið er að með leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að nemendur hugsi um það sem þeir eru að læra og að nemendur læri í námssamfélagi. Ein öruggasta leiðin til að fá nemendur til að hugsa um nám sitt er að hvetja þá til að tala um það. Samræður námsfélaga stuðla að því að nemendur velti í sameiningu fyrir sér spurningum sem tengjast náminu og skipuleggi það saman en þannig geta þeir lært hverjir af öðrum.
Námsfélagar eru valdir tilviljunarkennt, oftast til einnar viku í senn. Námsfélagar eru sessunautar á tímabilinu og ræða saman samkvæmt fyrirmælum kennara. Samræður námsfélaga eru mjög markvissar og tíminn sem nemendur fá til að hugsa og ræða spurningu eða fullyrðingu kennara miðast við að ekki skapast tækifæri til að hugsa eða ræða um óskylt efni. Um leið þarf tíminn að vera nægilega rúmur til að allir nemendur hafi tök á að ígrunda og ræða spurninguna sem um ræðir.
Fræðimenn (Clarke, 2018; Hattie, 2009; Wiliam og Leahy, 2015) fullyrða að bestur árangur náist þegar nemendur fá tækifæri til að vinna með fjölbreyttum hópi nemenda, bæði þeim sem eru betur og verr að sér í viðkomandi námsgrein. Mælt er með því að nemendur sem hafa takmarkað vald á ríkjandi tungumáli (íslensku) fái tvo námsfélaga í einu. Æskilegt er að skipulagið tryggi að allir nemendur fái námsfélaga úr öllum nemendahópnum/bekknum á skólaárinu. Þegar nemendur eru paraðir við félaga, sem eru komnir styttra á veg í náminu en þeir sjálfir, fara þeir oft í hlutverk þess sem útskýrir og dýpka þannig eigin skilning. Nemendur sem eru komnir styttra á veg í náminu fá tækifæri til að læra ýmislegt sem þeir hefðu engin tök á að læra ef þeir væru alltaf paraðir við nemendur sem eru á sama stað og þeir sjálfir. Það sama á við þegar nemendur á ólíkum aldri eru paraðir saman. Almennt upplifa nemendur tilviljunarkennt val námsfélaga sem sanngjarnt, jafnvel þótt stundum heyrist einhverjir neikvæðar raddir til að byrja með. Eins og við á um allt sem snýr að námi og kennslu þarf að vera ákveðið svigrúm til staðar, t.d. gæti í vissum tilvikum verið heppilegra fyrir einhverja nemendur að vera skemmri tíma en viku með hverjum námsfélaga.
Samræður námsfélaga gefa kennaranum dýrmætt tækifæri til að greina skilning nemenda og stöðu þeirra í náminu sem hjálpar honum til að koma til móts við þarfir þeirra.
Kenna þarf nemendur að vera námsfélagar og gefa þeim tíma og stuðning til að tileinka sér leikreglurnar sem hópurinn þarf að koma sér saman um.
Rannsóknir (sjá Clarke, 2012) hafa leitt í ljós margvísleg jákvæð áhrif námsfélaga á nemendur á öllum aldri sem styðja þá ákvörðun að vinna markvisst með námsfélaga m.a.
- Þátttaka nemenda í náminu verður meiri og færri nemendur eru óvirkir
- Hlutfall munnlegs náms eykst og það dregur úr skriflegum verkefnum
- Nemendur sem hafa lítil tök á ríkjandi tungumáli (íslensku) fá fleiri tækifæri til að læra með því að hlusta
- Málfar þroskast og orðaforði eykst
- Hæfni í samvinnu eykst
- Kennarar eiga auðveldara með að greina hvar nemendur eru staddir í náminu
- Það dregur úr kynjamun í námsárangri
- Það dregur úr einelti og neikvæðum samskiptum
- Nemendur sem hafa verið félagslega einangraðir ná betri tengslum við hópinn