Your Cart

„Verkfærin“ í leiðsagnarnámi og notkun þeirra

Væntanlega er helsta skýringin á miklum vinsældum leiðsagnarnáms í heiminum sú að ekki er vitað um annað, sem kennarar hafa á valdi sínu, sem getur skilað nemendum jafn miklum framförum í námi (Wiliam , 2020). Megin niðurstöður umfangsmikilla rannsókna Hatties „Visible Learning“ styðja þetta, ásamt fjölda annarra rannsókna.


Þegar tveir áhrifamiklir leiðtogar í þróun leiðsagnarnáms þau Dylan Wilam og Shirley Clarke lýsa bæði áhyggjum sínum af því að leiðsagnarnámið sé að villast af leið, hlýtur það að vekja athygli. Þau benda m.a. á að verið sé að túlka leiðsagnarnám á ýmsa vegu auk þess sem það gerist að kennarar eða skólar falli fyrir einstökum „verkfærum“ í leiðsagnarnámi, oft vegna þess að auðvelt sé að aðlaga þau kennsluháttunum sem fyrir eru. Þannig getur tilgangurinn með notkun „verkfæranna“ jafnvel orðið óljós og þjónar þar með ekki tilgangi sínum.


Það sem margir kalla „verkfæri“ í leiðsagnarnáminu eru í raunninni leiðir að tilteknu markmiði. Þegar megin athyglin beinist að leiðunum eða „verkfærunum“ og takmörkuð áhersla er á tilgang þeirra erum við búin að tapa kjarnananum í leiðsagnarnámi.


Dæmi um nokkur áhrifarík „verkfæri“ eða leiðir í leiðsagnarnámi eru: Engar hendur upp, nafnaspýtur, umfjöllun um heilann, umfjöllun um fastmótað-og vaxandi hugarfar, námsfélagar, fyrirmyndir, tvær stjörnur og ein ósk, miðjumat, námsveggir og umræður um mistök. Ef kennarar vita ekki hvers vegna þeir eru að nýta þessi „verkfæri“ og hver áhrif þeirra ættu að vera á nám nemenda þurfa þeir að staldra við og leita svara. Þetta á ekki aðeins að vera spurningin um hvað við gerum, heldur enn frekar hvers vegna og hvaða áhrifum það á að skila.


Eftirfarandi tafla sýnir áherslur leiðsagnarnáms. Aðeins þegar þær eru allar til staðar er um leiðsagnarnám að ræða, að mati Wiliam og Leahey. Clarke sem hefur unnið að þróun leiðsagnáms fyrir yngri nemendur (5-12 ára) leggur sérstaka áherslu á mikilvægi námsmenningarinnar sem talin er undirstaða þess að hægt sé að þróa leiðsagnarnám.


Þetta er leiðsagnarnám (Wiliam og Leahey)